Thursday, December 16, 2010


FRÉTTATILKYNNING – Kæru Vinir – Ræðusafn Ásmundar Ásmundssonar

Í kjölfar undangengins haustbókaflóðs hefur bókaútgáfan útúrdúr ákveðið að gefa út þann 22. desember jólabókina Kæru vinir – ræðusafn 2000 - 2010 eftir Ásmund Ásmundsson myndlistarmann. Bókin er safn ræðna sem listamaðurinn hefur haldið við hin ýmsu tilefni síðustu tíu ár og spanna vítt svið; allt frá fræðilegum úttektum á stöðu myndlistarinnar við Kaliforníuháskóla í Berkeley í Bandaríkjunum til tækifærisræðna við opnanir sýninga eða afmæli kollega.

Ræður Ásmundar eru löngu orðnar stór og mikilvægur hluti höfundarverks hans og eru reyndar sér kapítuli út af fyrir sig og því má segja að útgáfa á safni þessu sé löngu tímabær. Ræðurnar hefur Ásmundur flutt jafnt hérlendis sem erlendis og eru þær flestar birtar bæði á ensku og íslensku, auk þess eru fáeinar á þýsku. Bókin er prýdd fjölda ljósmynda og er fallegur og vandaður gripur í alla staði, hannaður af Ámunda.

Það er Viðar Þorsteinsson MA sem hefur ritstýrt þessu merka riti af nákvæmni og einlægni. Hugleiðingar Vals Brynjars Antonssonar fylgja og bókinni þar sem hann leggur út frá ræðulist Ásmundar. Þar segir meðal annars:

“Ásmundur gefur fólki aldrei tilefni til að hneykslast á ræðum sínum. Hann er hátíðlegur og kurteis, glaðbeittur og hreinskiptinn, en mörgum finnst þessar ræður mjög óþægilegar. Órói fer um salinn. Fólk streymir í burtu, fer á klósettið, út að reykja eða man skyndilega eftir símtali. Það sem veldur óþægindunum er ekki dónaskapur ræðumannsins, heldur hitt, að hann reynir of mikið að haga seglum eftir vindi.
Í ræðum hans koma fyrir öll réttu orðin: allar klisjurnar um íslenska náttúru, kraftinn í íslensku listamönnunum, trúin á innilegt samband þjóða og sömuleiðis allar tuggurnar um uppreisnargjarna listamanninn sem boðar landanum eitthvað nýstárlegt og hneykslanlegt.”

Ræðubók Ásmundar er þriðja útgáfan sem kemur út undir merkjum útúrdúrs. Áður hefur útúrdúr sent frá sér bókina TSOYL eftir Harald Jónsson og endurútgefið Handbók í Hugmyndavinnu eftir Steingrím Eyfjörð.

Í tilefni útgáfunnar efnir útúrdúr til fagnaðar í heimkynnum sínum að Austurstræti 6 útgáfudaginn sjálfan, miðvikudaginn 22. desember næstkomandi frá kl.17-20 þar sem bókin verður rækilega kynnt og boðið upp á léttar veitingar.

Nánari upplýsingar og viðtalsbeiðnir má nálgast hjá Sigurði M. Finnssyni í s.6948776 eða siggimaggi@gmail.com