Sunday, December 6, 2009

Eitthvað annað eftir Einar Guðmundsson (litlaskáld)

Hér má finna hugleiðingar Silfur Egils á Eyjunni um þetta verk:

"Fyrir þremur áratugum gaf Einar Guðmundsson, stundum kallaður “litlaskáld”, út bókina Án titils. Hún hefur æ síðan verið í hópi fárra íslenskra kúlt-bóka – ég veit ekki hvort hún er fáanleg lengur.

Bókin var að miklu leyti skrifuð í dagbókarformi. Þarna voru opinskáar lýsingar á skáldalífi og slarki í Reykjavík árið 1976. Margir þeir sem komu við sögu í bókinni voru ekki alveg sáttir við hlut sinn – þess vegna var bókin kölluð í gamni “Án tillits”.

Um daginn fann ég í bókabúð nýja bók eftir Einar Guðmundsson. Fletti henni. Tímdi ekki alveg að kaupa hana. Fór aftur inn í búðina og keypti hana. Las hana um kvöldið og nóttina. Það er langt síðan ég hef veinað úr hlátri við lestur bókar.

Í bókinni sem ber heitið Eitthvað annað tekur Einar að sumu leyti upp þráðinn frá því í Án titils. Sumar persónurnar eru þær sömu, tíminn er aðeins fyrr – árin fyrir og um 1970.

Aðalpersónurnar eru tvær, rithöfundurinn Steinar Sigurjónsson og Jón Yngvi sem líka var rithöfundur – á sinn hátt.

Mér er til efs að núorðið sé hægt að finna svona rosalegar skáldagrillur, en á þessum árum voru þær nokkuð algengar. Bæði Steinar og Jón lögðu allt undir fyrir list sína. Steinar fór frá konu, börnum og setjaravél á Akranesi, skrifaði eins og óður maður, hugsaði ekkert um eigin hag eða þægindi, bjó oft á drykkjuhælum, ferðaðist og lenti í ógurlegum hrakningum, fór á skelfilega fyllerístúra.

Eitt sinn fór ég til Írlands. Þar hafði Steinar verið á ferð á undan mér. Sums staðar hafði ég spurnir af honum. Á Aran-eyjum var íbúunum nóg boðið eitt kvöldið, þeir settu Steinar haugfullan um borð í bát og ýttu frá. Vissi af reynslu sinni að hann myndi reka upp á meginlandið. Þar mun Steinar hafa vaknað í fjörunni um morguninn.

Þetta breytti því ekki að Steinar dáði Íra og írskar bókmenntir.

Það er varla ofsagt að Steinar hafi verið erfiður maður. Yfirleitt fékk hann verk sín ekki útgefin – sumir telja að hann hafi verið mikill höfundur, ég held að hann reyni ansi mikið á þolrifin. Ég veit að hópur manna hefur verið að reyna að koma út ritsafni Steinars – kannski af því sumir bókmenntafræðingar þrá að finna öfugsnúin séní sem sýstemið þaggaði niður í. Ég er ekki viss um að Steinar rísi undir því.

Jón Yngvi vann að því að skrifa það sem gekk undir nafninu “stóra bókin” eða “bókin eina”. Hann var talinn í hópi höfunda sem miklar vonir voru gerðar til. Jón bjó löngum tímum í Flatey eða brá sér til útlanda í von um að fá næði til að skrifa. Hann þurfti að fá réttan pappír, rétt andrúmsloft til að andinn kæmi yfir hann. Líklega skrifaði hann aldrei neitt. Menn biðu eftir bókinni í áratugi – svo dó Jón sviplega af slysförum um nótt á Suðurlandsbrautinni.

Líkt og Steinar hrjáðu hann ekki bara skáldagrillur, heldur líka alkóhólismi.

Þessu lýsir Einar á einstaklega kaldhæðin hátt, minnir sumt á lýsingar Strindbergs á skáldalífi í Stokkhólmi – það er sífellt verið að stelast til að blanda áfengi í kaffi eða te á matsölustöðum, annars eiga skáldjöfrarnir varla í nein hús að venda. Smáborgarbragurinn er óskaplegur. Eins og eitt skáldið sagði um andrúm þessa tíma – það var alltaf rigning og kaffið var vont. Var Reykjavík svona ömurleg?

Þarna bregður líka fyrir súm-ískum köflum, annars væri þetta ekki Einar, hinn gamli fóstbróðir Sigurðar og Kristjáns Guðmundssona – samhliða frásögninni er hann sjálfur að fást við að skrifa “Bókina sem ég gekk aldrei með í maganum”.

En það er bara gaman fyrir okkur sem á sínum tíma lásum Lablöðu hérgulu – útgáfan er kannski óþarflega neðanjarðarleg, en kannski þarf Einar ekki að hafa meira við – sú saga hefur jú lengi gengið að hann hafi kvænst barónessu í Suður-Þýskalandi. Að minnsta kosti hefur hann ekki sést hér lengi."