Friday, May 22, 2009

BISCAYNE BLVD



Apaflasa kynnir vorútgáfu sína 2009: Bókverkið: BISCAYNE BLVD eftir Ófeig Sigurðsson og Magnús Árnason.

Bókin verður kynnt og útgáfu hennar fagnað í bókverkabúðinni Útúrdúr sem nú er til húsa í Nýlistasafninu við Grettisgötu, laugardaginn 23. maí, klukkan 17.


Bókverkið BISCAYNE BLVD minnir á miðaldahandrit úr framtíðinni,
en bókin er tileinkuð minningu Geirlaugs Magnússonar, skálds, sem dreymdi um að búa til vatnshelda buslu-Heimskringlu handa Snorra í lauginni. BISCAYNE BLVD er ljóðabálkur í sílikoni, saminn undir áhrifum af mangó-uppboðum í Miami-borg þar sem Ófeigur og Magnús settu upp eina af þeim myrku og blautu innsetningum sem Magnús er þekktur fyrir í myndlistinni.

Í fyrra las Ófeigur Sigurðsson upp úr sumarútgáfunni 2008 í bakgarði Útúrdúrs við Njálsgötu, en það var ljóðabókin Provence í endursýningu. Nú er Útúrdúr flutt inn í Nýlistasafnið en ef veður leyfir mun upplestur úr sumarútgáfunni 2009: BISCAYNE BLVD vera í sólinni í portinu en á safnglugganum sýnd systraverk bókverksins, því Magnús Árnason hefur smíðað tíu veggmyndir úr sílíkoni sem kallast á við kápumyndir ljóðabókarinnar. Myndverkin
eru eingöngu til sýnis á útgáfudag bókarinnar, en síðan til sölu í Útúrdúr,
eins og líka BISCAYNE BLVD sem er bara gefin út í þrjátíu eintökum, enda er hvert eintak stórvirki.

Allir eru velkomnir á útgáfuhátíðina sem byrjar klukkan fimm og stendur til sex. Boðið verður upp á að snerta bókverkin, drekka ávaxtabollu og hlusta á upplestur.