Wednesday, September 25, 2013

Bókin Skugginn af sjálfum mér eftir Bjarna Hinriksson er komin út. 


Föstudaginn 27. september er útgáfugleði frá klukkan 17-19 og allir eru velkomnir.

Í þessari myndasögu fyrir fullorðna segir af Kolbeini Hálfdánssyni, myndasöguhöfundi, sem ásamt tíu ára syni sínum er í fríi á Kanaríeyjum. Feðgarnir þvælast um Gran Canaria og velta fyrir sér ýmsu smálegu, meðal annars möguleikanum á lífi án hugsana; uppruna og afdrifum frumbyggja eyjanna; áhrifum ástarinnar á geimferðir og hitastigi vatnsrennibrautanna í Aqualand. 
Milli þess sem feðgarnir ræða þessi aðkallandi úrlausnarefni daglegs lífs rekur Kolbeinn útgáfusögu sína. Hann stendur á bjargbrún listræns tóms og myrkurs: eftir að hafa fengist við myndasögugerð í hálfan annan áratug getur hann varla lengur tengt saman orð og myndir. Skuggi, aðalpersóna sagnabálks Kolbeins, virðist hægt og rólega hafa tekið yfir líf Kolbeins með uggvænlegum afleiðingum. Rit- og teiknistíflu. Hjónaskilnaði. Jafnvel morði. Er mögulegt að snúa aftur eftir að hafa týnt sér bæði í myndum og orðum?

Bjarni Hinriksson nam myndasögugerð við École régionale des beaux-arts í Angoulême, Frakklandi, á árunum 1985-89. Síðan hefur hann samið og teiknað myndasögur auk þess að starfa sem grafískur hönnnuður hjá RÚV og við kennslu í Myndlistaskólanum í Reykjavík. Bjarni er einn af stofnendum (gisp!)-hópsins sem gefið hefur út samnefnt myndasögublað frá 1990. Sögur eftir Bjarna hafa birst í tímaritum og safnbókum á Norðurlöndum og í Frakklandi. Af bókum hér heima má nefna Stafrænar fjaðrir (2003) og Krassandi samveru (2005).

Skugginn af sjálfum mér er gefin út af (gisp!)