Allur lestur er þjófnaður.
Öll hlustun er þjófnaður.
Allt áhorf er þjófnaður.
Ást er þjófnaður er safn stuttra ritgerða um höfundarétt og bókaþjófnað eftir Eirík Örn Norðdahl. Bókin var skrifuð og gefin út á einum helvítis mánuði um mitt ár 2011 með það fyrir augum að flækja umræðuna. Bókin kom út bæði sem prentgripur og sem rafbók gegn frjálsu framlagi á www.norddahl.org
Brot úr umsögnum:
„Eiríkur hremmir lesandann frá byrjun, mig alla vega, og allar þær 155 blaðsíður sem kverið er rígheldur hann manni við efnið, vekur upp hjá manni þanka, bryddar upp á því sem maður hafði ekki áttað sig á og skerpir á hugsun manns og skoðunum á þessu álitamáli sem samband höfundarréttar og sköpunar er. Svona vel hefur enginn íslenskur höfundur gert í debatriti, ekki svo ég hafi lesið alla vega, síðan að Andri Snær kom fram með Draumalandið.“
Sigurður Ólafsson – Bókablogginu
„Ég lagðist upp í rúm rétt fyrir miðnætti, kvöldið sem ég keypti bókina. Þrem tímum síðar varð ég að þvinga mig til að hætta lestrinum. Ég trúi því varla sjálfur ég hafi heillast svona af bók um höfundarétt (því eins og áður sagði, hef ég ekki innblásin áhuga á efninu).
En bókin er einfaldlega stórskemmtilega skrifuð. Grípandi og fróðleg – tregablandinn og sprenghlægileg.“
Baldur McQueen – dv.is
Eiríkur [...] er búinn að vinna áttunda borðið í skrifmaríó og allir sveppirnir eru orðnir að hjálmsdýrum [...] Ég mæli sumsé hiklaust með bókinni Ást er þjófnaður. Hún er frábær, boðberi nýrra tíma og stimplar Eirík inn sem framsýnan listamann og hugsuð
Gylfi Ólafsson – gyl.fi
„Farið og náið í bókina hans Eiríks Arnar og lesið hana – hvort sem þið borgið fyrir hana eða ekki. Sjálfur splæsti ég lágmarksupphæð á höfundinn þrátt fyrir að ég hefði getað réttlætt mig frá því þar sem ég er að skrifa um hana. Hún er einfaldlega nauðsynlegt innlegg í umræðuna um höfundaréttamál í dag og þeir sem hunsa hana eru viljandi að velja þann kost að vera óupplýstir.“
Óli Gneisti – ritstjóri Rafbókavefsins á Truflun.net